Trékyllisheiðin 2021

Íslenska English

Keppnishaldari

Skíðafélag Strandamanna
Kt. 510100-2120
Víkurtúni 10
510 Hólmavík
Aðalbjörg Óskarsdóttir
Símanr.: 868 7156
allaoskars@gmail.com

Skráðir þátttakendur
Trékyllisheiðin er nýtt utanvegahlaup sem fer fram á Ströndum í fyrsta sinn laugardaginn 14. ágúst 2021. Tvær vegalengdir eru í boði, 47 km (um 1.390 m samanlögð hækkun) og 15,5 km (um 240 m hækkun).

Trékyllisheiðin
Trékyllisheiði er fjallvegur á milli Steingrímsfjarðar og Trékyllisvíkur á Ströndum. Leiðin yfir heiðina var greiðasta leiðin á milli þessara byggðarlaga áður en vegur var lagður meðfram snjónum norðan Bjarnarfjarðar. Heiðarleiðin er mun styttri en bílvegurinn, en liggur víðast í um 400 m hæð og er afar hrjóstrug, gróðursnauð og illviðrasöm á vetrum. Heiðin verður því sjaldan fyrir valinu sem ferðaleið ef aðrar hlýlegri standa til boða. Jeppaslóði liggur yfir heiðina, en hann er mjög seinfarinn, nema helst þegar harðfenni er yfir.

Á bls. 139 í Fjallvegahlaupabók Stefáns Gíslasonar (Salka 2017) er að finna eftirfarandi lýsingu:
Trékyllisheiði hefur hvorki verið mönnum blíð né auðveld yfirferðar síðustu aldirnar. Til eru margar hrakfarasögur af heiðinni og Jakob Thorarensen (1886-1972) skáld frá Gjögri komst svo að orði að þar væri „jafn þurlegt og í dómssal, eins þögult og í gröf“ og að „sólin jafnvel hornauga horfir á þann stað“, því að „geislunum sé þarfara’ að glæða í dölum blað,/ en gylla holt, sem engu lífi kynnast“. Kvæðinu lýkur á þessari hendingu:
„En þar sem vor er vetur og vex ei strá né blað,
fær verstan löðrung bjartsýnin og – trúin“.
Þórbergur Þórðarson var einn þeirra sem átti leið um Trékyllisheiði á sínum tíma. Hann gekk þarna yfir mánudaginn 30. september 1912 í framhjágöngunni miklu, lagði á heiðina frá Kjós kl. 10 árdegis og var kominn að Bólstað kl. 15:40. Þar drakk hann kaffi.


Hlaupaleiðir
Lengra hlaupið (47 km) hefst við félagsheimilið í Árnesi í Trékyllisvík. Þaðan er hlaupið eftir malarvegi (Þjóðvegi 643, Strandavegi) til norðvesturs, um 3 km leið. Þegar komið er fram hjá bænum Melum er beygt til vinstri inn á jeppaveg (Ófeigsfjarðarveg) sem liggur yfir Eyrarháls áleiðis í Ingólfsfjörð. Um það bil sem komið er upp á háhálsinn (um 2,2 km frá Strandavegi, um 200 m hækkun) er beygt til vinstri inn á torfæran slóða sem liggur til að byrja með í suður og suðvestur inn á Trékyllisheiði. Hlaupið er fyrir norðan fjallið Glissu og á þeim kafla er hæsti punktur hlaupsins, um 500 m.y.s. Um það leyti eru 10 km að baki. Um 7 km síðar er enn tekin vinstri beygja vestan við Reykjarfjarðarvatn og hlaupið suður með Búrfelli austanverðu nálægt brúnum inn af Reykjarfirði, m.a. yfir vatnslitlar ár sem þar eru (Mjóadalsá, Breiðadalsá og Óveiðisá). Eftir u.þ.b. 23 km hlaup eru hlaupararnir staddir upp af Kjósarhjöllum ofan við Djúpuvík. Eftir það liggur leiðin áfram til suðurs yfir hina eiginlegu Trékyllisheiði, þar sem jeppaslóðum er fylgt lengst af. Sunnantil á heiðinni, eftir u.þ.b. 33 km, liggur leiðin yfir Goðdalsá sem getur verið vatnsmikil í leysingum og í vætutíð. Vakt verður við ána til að tryggja að allir komist klakklaust yfir. Um 6 km sunnar liggur leiðin fram hjá vegamótum. Þangað liggur jeppaslóði af Bjarnarfjarðarhálsi, þaðan sem keppendur í styttra vegalengdinni koma inn á aðalleiðina. Eftir það hallar vötnum mjög til Steingrímsfjarðar. Komið er niður í Selárdal skammt frá eyðibýlinu Bólstað, vaðið yfir Selá (með aðstoð eftir þörfum) og endaspretturinn tekinn inn dalinn að skíðaskálunum á Brandsholti, þar sem hlaupið endar.

Kort af leiðinni má finna á https://www.strava.com/routes/2788042885606587082.

Hlaupið er viðurkennt af ITRA (International Trail Running Association) og gefur 2 ITRA-punkta.

Styttra hlaupið (15,5 km) hefst í u.þ.b. 200 m hæð á þjóðveginum á Bjarnarfjarðarhálsi við norðanverðan Steingrímsfjörð, u.þ.b. 2 km ofan við bæinn Bassastaði. Þaðan liggur leiðin eftir jeppaslóða inn á sunnanverða Trékyllisheiði. Eftir u.þ.b. 8,5 km er komið inn á hlaupaleiðina norðan úr Trékyllisvík, (sjá leiðarlýsingu lengra hlaupsins). Þar er beygt til suðurs og hlaupið sömu leið og í lengra hlaupinu, niður í Selárdal og að skíðaskálanum þar sem hlaupið endar.

Kort af leiðinni má finna á https://www.strava.com/routes/2788049304730665954.

Hlaupið er viðurkennt af ITRA.

Sætaferðir
Sem fyrr segir verður boðið upp á sætaferðir fyrir þá sem vilja frá skíðaskálanum að rásmörkum beggja hlaupa að morgni hlaupadags. Eins og fram hefur komið er skíðaskálinn í um 16 km fjarlægð frá Hólmavík. Á Hólmavík er nokkurt framboð af gistingu og það sama gildir um Árneshrepp, þaðan sem lengra hlaupið er ræst, (sjá nánar um gistimöguleika neðst í þessari kynningu).

Við skráningu þurfa þátttakendur að merkja við hvort þeir hyggist nýta sér sætaferðirnar og bætist fargjaldið þá við skráningargjaldið. Fargjald úr Selárdal til Trékyllisvíkur er 7.000 kr/mann en 2.000 kr/mann að rásmarki styttra hlaupsins á Bjarnarfjarðarhálsi. Um fargjöld gilda sömu endurgreiðsluskilmálar og með þátttökugjöld, (sjá neðar). Þeir sem afþakka sætaferðina við skráningu geta eftir sem áður pantað far með því að senda tölvupóst á allaoskars@gmail.com í síðasta lagi 31. júlí 2021. Ekki er þó hægt að tryggja að nægt sætaframboð verði á þeim tíma.

Dagskrá hlaupadags
Kl. 07:30 Rútuferð úr Selárdal norður í Trékyllisvík
Kl. 10:00 Start 47 km við Félagsheimilið í Árnesi
Kl. 12:00 Rútuferð úr Selárdal upp á Bjarnarfjarðarháls
Kl. 13:00 Start 15,5 km á Bjarnarfjarðarhálsi
Kl. 13:30 Von á fyrstu keppendum í mark
Kl. 15:30 Verðlaunaafhending í Selárdal
Kl. 18:00 Marki lokað

Skráning og verð
Þáttökugjald er 13.900 kr. í lengra hlaupið og 6.900 kr. í styttra hlaupið. Innifalið í þáttökugjaldi er:
  • Tímataka og númer
  • Brautar- og öryggisgæsla
  • Drykkir og næring á drykkjarstöðvum og í marki
  • Salernisaðstaða við rásmark og í marki
  • Flutningur á farangri frá rásmarki að endamarki
Verðlaun fyrir 3 efstu karla og konur

Afhending gagna
Hlaupagögn verða afhent í íþróttamiðstöðinni á Hólmavík föstudaginn 13. ágúst kl. 18:00-21:00. Mikilvægt er að sem flestir sæki gögnin sín þá. Gögn sem ekki verða sótt á föstudeginum verða afhent í rútum á leið að rásmarki og við rásmark.

Tímataka
Tímataka verður með flögum (https://timataka.net).

Drykkjarstöðvar
Þrjár drykkjarstöðvar verða á lengri leiðinni og ein á þeirri styttri. Auk þess verður boðið upp á hressingu við endamark. Drykkjarstöðvar a lengri leiðinni verða vestan við fjallið Glissu (eftir um 16 km), sunnan við Búrfellsvatn (eftir um 27 km) og við vegamótin inn af Bjarnarfjarðarhálsi (eftir um 39 km). Sú drykkjarstöð þjónar jafnframt styttri leiðinni, en þar verða um 8,5 km búnir af henni.
Á drykkjarstöðvunum verður boðið upp á vatn og orkudrykk.

Engin pappa- eða plastmál verða þar til staðar, heldur verða hlauparar að koma með fjölnota glös til að geta fengið drykki.

Brautarvarsla og merkingar
Leiðin er að mestu leyti auðrötuð, þar sem hlaupið er eftir jeppaslóðum og troðnum stígum. Merkingum verður bætt við þar sem vafi getur leikið á hvert halda skuli. Einnig verður brautarvarsla á mikilvægustu stöðum, svo sem við vegamót norðan við Mela, við vegamót á Eyrarhálsi, við afleggjara inn af Bjarnarfjarðarhálsi, nálægt Bólstað og á Geirmundarstaðavegi. Þá verður aðstoðarfólk til taks við vöðin á Goðdalsá og Selá, þar sem báðar eiga það til að vera nokkuð vatnsmiklar.

Verðlaun
Verðlaun verða veitt fyrir þrjú efstu sætin í karla- og kvennaflokkum.

Gisting
Nokkrir gistimöguleikar eru á svæðinu bæði í kringum Hólmavík, Drangsnes, í Bjarnarfirði og í Árneshreppi, sjá nánar á http://strandagangan.123.is/page/37454 og http://www.arneshreppur.is/gisting.html.

Opnunartímar sundlauga á hlaupdegi
Sundlaugin á Hólmavík til kl. 21:00
Sundlaugin á Laugarhóli í Bjarnarfirði til kl. 22:00
Sundlaugin á Drangsnesi til kl. 18:00
Pottarnir á Drangsnesi eru opnir allan sólarhringinn
Sundlaugin á Krossnesi í Árneshreppi er opin allan sólarhringinn
Upplýsingar um keppanda


Keppnisgreinar

14.08.2021