Vatnsnes Trail Run
Ræsing fyrir 10 km og 20+ km hlaupin er við Félagsheimilið á Hvammstanga. Hlaupið er upp göngustíg meðfram Syðri-Hvammsá og upp í Kirkjuhvamm. Þaðan er hlaupið fram hjá gömlu kornmyllunni og á stíg í gegnum fallegt skógarsvæði og svo mólendi á kindagötu og ánni fylgt áfram upp fyrir Fossa. Þar er stefnan tekin yfir ána til suðurs upp á Efstaberg með fallegu útsýni yfir Hvammstanga og einnig bæði inn Miðfjörð og Hrútafjörð og út á Húnaflóann þegar komið er alla leið upp. Haldið er svo til austurs (vinstri) yfir ána og áleiðis upp með Skógarmannsgili og til norðurs (vinstri) meðfram Sneiðingi á gamalli kindagötu fram hjá Snældukletti. Hlaupið er áfram norður yfir Draugagilslækinn og komið í undurfagran Hvamminn með sínum fallegu lækjum og smáfossum.
Í 10 km leiðinni er drykkjarstöðin þar og stefnan svo tekin niður úr Hvamminum frá drykkjarstöðinni í átt að sjónum. Farið er yfir smá mýrlendi meðfram Ytri- Hvammsánni, hlaupið áfram á kindagötu niður holtin og móana, í gegnum skógræktina fyrir ofan tjaldsvæðið í Kirkjuhvammi og niður meðfram veginum þar, áfram á göngustíg og endað með góðum niðurspretti í markið við Félagsheimilið!
Heildarhækkun: 513 m.
20+ km leiðin heldur áfram til norðurs fyrir ofan drykkjarstöðina úr Hvamminum og gömlum vegarslóða fylgt út og niður á fjallveginn sem liggur upp að Káraborg. Þá tekur við hækkun upp veginn að Káraborginni sem er falleg stuðlabergsklettaborg og frábært útsýni þaðan yfir firði og fjöll. Áfram er haldið upp að Fjalagilslæk þar sem drykkjarstöðin er. Þar er fallegt fjallaútsýni og bera Strandafjöllin við sjóndeildarhring í norðri. Frá drykkjarstöðinni er snúið við og haldið niður veginn aftur um 2 km en svo farið út af honum á vegarslóða sem liggur til suðurs (vinstri) og yfir í Hvamminn, hlaupið svo þaðan niður (hægri) sömu endaleið og 10 km hlaupið meðfram Ytri- Hvammsánni, í gegnum skógræktina fyrir ofan tjaldsvæðið niður í Kirkjuhvamm og endað í markinu við Félagsheimilið!
Heildarhækkun: 826 m.
Báðar hlaupaleiðirnar eru að mestu á stígum, vegarslóða og kindagötum en á stuttum köflum í mýrlendi og mólendi.
Drykkjarstöð er við 6 km í 10 km leiðinni og við 12,5 km í 20+ km leiðinni
Ræsing 20+ km kl. 14
Ræsing 10 km kl. 15
Stefnt er að hafa 20 km hlaupið ITRA vottað.
Vegleg útdráttarverðlaun verða veitt og einnig verðlaun fyrir efstu þrjú sætin í karla og kvennaflokkum í báðum vegalengdum. Léttar veitingar verða í boði fyrir alla þátttakendur í 10 og 20 km hlaupunum að loknu hlaupi.
Fjölskylduhlaup, tæpir 1,5 km, verður einnig í boði og byrjar það og endar við Félagsheimilið á Hvammstanga.
Ræst er í hlaupið kl. 13 og er
frítt fyrir alla í hlaupið og glaðningur að hlaupi loknu fyrir börnin!
Fallegar, fjölbreyttar og frábærar hlaupaleiðir í mögnuðu umhverfi- stuð, stemning og skemmtun fyrir alla fjölskylduna!
Hafið og fjöllin og allt þar á milli svo allir ættu að geta fundið sína vegalengd við hæfi!
Skráning í öll hlaupin er á netskraning.is og er hægt að skrá sig fram að ræsingu á hlaupadegi.
Hægt að fá endurgreitt viku fyrir hlaup, senda tölvupóst á vatnsnestrailrun@gmail.com
Verð 10 km hlaup: 5000 kr.
Verð 20+ km hlaup: 7000 kr.
Þátttakendur fá frítt í sund í Íþróttamiðstöð Húnaþings vestra að hlaupi loknu.